Fréttir

Gunnlaugur Árni vann sitt annað mót í bandaríska háskólagolfinu - „ hinn íslenski Tiger“
Þriðjudagur 21. október 2025 kl. 18:01

Gunnlaugur Árni vann sitt annað mót í bandaríska háskólagolfinu - „ hinn íslenski Tiger“

Íslenski landsliðskylfingurinn og GKG-ingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson sigraði á Fallen Oak Collegiate Invitational mótinu í bandaríska háskólagolfinu í vikunni. Þetta er annar sigur Íslendingsins í háskólagolfinu en þessi magnaði kylfingur hefur hafið tímabilið af miklum krafti. Sex af tuttugu sterkustu skólum landsins mættu til leiks og margir af bestu áhugakylfingum heims voru á meðal keppenda.

Fallen Oak mótið fór fram á samnefndum velli í Mississippi dagana 18.-20. október. Leikinn var 54 holu höggleikur í bæði einstaklings- og liðakeppni. Fjórtán skólar sendu lið í mótið, en keppendur voru alls 81.

Gunnlaugur lék hringina þrjá á 66-70-67 höggum og var þrettán undir pari í heildina.

„Á fyrsta keppnisdegi lék landsliðskylfingurinn á 66 höggum, sex undir pari, sem reyndist besti hringur dagsins. Hann fékk sjö fugla, einn skolla og var nefndur „hinn íslenski Tiger“ á samfélagsmiðlum skólans. Deilt er um hvort vitnað sé þar í lukkudýr skólans, sem er tígrisdýr, eða sjálfan Tiger Woods,“ segir í færslu Úlfars Jónssonar á heimasíðu GKG.

Annan hringinn lék Gunnlaugur á tveimur höggum undir pari, fékk fjóra fugla, tvo skolla og var tveimur höggum á eftir liðsfélaga sínum, Matthew Dodd-Berry, fyrir lokahringinn.

Á lokahringnum lék Gunnlaugur frábært golf, fékk fimm fugla og tapaði ekki höggi. Mikil spenna var á lokasprettinum, en William Jennings úr Alabama háskólanum var jafn Gunnlaugi fyrir lokaholuna. Skolli hjá William á átjándu gaf okkar manni sigurinn, sem gat vart verið sætari. Foreldrar Gunnlaugs voru á vellinum ásamt Andrési Davíðssyni, sem er þjálfari Gunnlaugs hjá GKG.

Smelltu hér til að sjá úrslit mótsins:

Skóli Gunnlaugs, LSU, varð jafn í efsta sæti liðakeppninnar á 32 höggum undir pari. Þar leika sex kylfingar fyrir hvern skóla og gilda fjögur bestu skor liðsins á hverjum degi. LSU var í yfirburðastöðu fyrir lokahringinn, en tapaði ellefu höggum til Alabama háskólans á lokahringnum. Liðin deildu því gullinu.

Smelltu hér fyrir stöðuna í liðakeppninni:

Tímabilið fer frábærlega af stað hjá Gunnlaugi Árna, en hann hefur verið í efstu ellefu sætunum í öllum fjórum háskólamótum tímabilsins. Hann situr í 13. sætinu á heimslista áhugamanna sem stendur, en með árangrinum þykir þó líklegt að hann taki stökk upp listann á næstu dögum.